janúar 9, 2015

Náttúruvísindi á 21. öldinni

image_pdfimage_print

NaNo logoKennurum stendur nú til boða nýtt og spennandi námskeið þar sem hægt er að kynnast nýjustu tækni og vísindum með tengingu við stofnanir og fyrirtæki á Íslandi. Í námskeiðinu er farið yfir valin þverfagleg viðfangsefni úr vísindastarfi með áherslu á framtíðina t.d. líftækni, orkuframleiðslu, umhverfi og sjálfbæra þróun. Viðfangsefnin tengjast námi og kennslu í grunn- og framhaldsskólum og eiga að þjálfa kennara í að taka við spurningum frá nemendum um nýjustu tækni og vísindi. Námskeiðið er ætlað kennurum á unglingastigi í grunnskólum og kennurum í framhaldsskólum.

Námskeiðið er kennt í lotum en hver lota stendur yfir í 3 vikur. Þátttakendum úti á landi stendur til boða að fylgjast með í viku eitt og þrjú í hverju þema í gegnum fjarfundarbúnað en í viku tvö er mætingarskylda. Námskeiðið byggist á lestri greina í fag- og vísindatímaritum um nýjungar í náttúruvísindum, kynningum fluttum af vísindamönnum og samnemendum, og verkefnavinnu.

Námskeiðið er kennurum að kostnaðarlausu.

Ítarlegri upplýsingar um námskeiðið veita Verkefnastjórar NaNo –  Birgir U. Ásgeirsson (birgira@hi.is), Ester Ýr Jónsdóttir (esteryj@hi.is) og Svava Pétursdóttir (svavap@hi.is).