nóvember 4, 2016

Hvað er GERT?

GERT – Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að auka áhuga grunnskólanemenda á raunvísindum og tækni.

Hverjar voru forsendur verkefnisins?

Þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað á undanförnum árum vegna tækniframfara og alþjóðavæðingar hafa leitt til umræðu víða um mikilvægi þess að horfa til framtíðar og huga að því hversu vel þjóðir, menntakerfi þeirra og atvinnulíf eru í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru til að tryggja velmegun og velferð. Undanfarin ár hefur íslenskt atvinnulíf lagt mikla áherslu á að efla starfsmenntun og að komið verði til móts við þörf vinnumarkaðarins fyrir menntað starfsfólk á sviði raunvísinda- og tækni. Það er forsenda aukinnar framleiðni og verðmætasköpunar.

Hvað er GERT verkefnið?

Markmið verkefnisins er að bjóða uppá lausnir (verkfærakistu) fyrir nemendur og kennara í grunnskólum sem geta leitt af sér aukna þekkingu og ekki síður áhuga á raunvísindum og tækni og þannig uppfyllt betur framtíðarþörf vinnumarkaðar.

Verkefnið hófst 2012 með því að settur var á stofn starfshópur og unnin var skýrslan “Staða íslenskra nemenda og framtíðarþörf samfélagsins” til þess að varpa ljósi á stöðuna. Í kjölfarið kortlagði hópurinn stöðu raunvísinda- og tæknimenntunar á landinu m.t.t. frammistöðu nemenda, viðhorf, mat kennara og forspár um þörf fyrir tæknimenntað fólk. Að lokum var sett fram aðgerðaáætlun sem unnið er eftir og snýst um að auka áhuga nemenda á raunvísindum og tækni, verkmenntun og störfum sem þeim tengjast.

Áætlunin byggist á fjórum skilgreindum lykilmarkmiðum:

I. Samráð og ákvarðanataka á grundvelli rannsókna og gagna

1. Fylgja GERT verkefninu markvisst eftir með formlegum vettvangi þar sem fram fara reglulegir stöðufundir, samtöl og samráð hagsmunaaðila
2. Ítarlegri úrvinnsla á fyrirliggjandi gögnum

II. Aukinn áhugi og þekking nemenda á möguleikum raunvísinda og tækni

3.Gera val um námsleiðir við lok grunnskóla aðgengilegar og skýrar fyrir nemendur og aðstandendur
4.Styrkja og samtvinna átaksverkefni og viðburði sem tengjast raunvísindum og tækni

III. Aukin hæfni kennara og bættir starfsþróunar- og símenntunarmöguleikar í raunvísindum og tækni

5.Auka tengsl og samvinnu kennara og skóla við sérfræðinga á sviði raunvísinda og tækni
6.Auka fjölbreytni í starfsþróun kennara á sviði raunvísinda- og tækni
7.Gera átak til að fjölga kennaranemum með sérstaka áherslu á raunvísindi og tækni

IV. Fjölbreyttir kennsluhættir og tengsl við atvinnulíf

8.Fjölbreyttari kennsluhættir
9.Hvetja til og skipuleggja jafningjafræðslu
10.Bjóða upp á verkefni í skólum sem tengjast atvinnulífinu/samstarfsverkefni fyrirtækja og skóla
11.Áherslur í nýrri aðalnámskrá og greinanámskrá grunnskóla

Í hvaða mynd er verkefnið í dag?

Á þessu skólaári 2017-2018 hefur þátttökuskólunum fjölgað í 42, og eru fjölmörg fyrirtæki í samstarfi boðin og búin að taka á móti nemendum eða heimsækja skólana eftir því sem hentar hverju sinni.

Starf skólanna í tengslum við GERT hefur verið mis umfangsmikið á milli skóla en allt með því sama markmiði að efla áhuga nemenda á raunvísindum, tækni, verknámi og tengdum störfum. Þar ber helst að nefna:

Öflugt samstarf við atvinnulífið þar sem samstarfsfyrirtæki GERT hafa tekið á móti nemendum og ýmis verkefni í tengslum við fyrirtækjaheimsóknir. Heimsóknir í menntastofnanir m.a. Tækniskólann, Keili, Lista-háskólann og Landbúnaðarháskólann ofl. sem hafa kveikt áhuga margra nemenda á störfum og námsbrautum sem þau þekktu ekki áður. Kynningar frá Team spark, hópi verkfræðinema við HÍ, sem vinna að því að smíða rafmagnskappakstursbíl. Einnig hafa starfamessur verið haldnar með mismunandi hætti þar sem forráðamenn eru nýttir til að kynna sín störf fyrir nemendum.

Annað starf í tengslum við GERT sem skólarnir hafa boðið upp á er t.d. forritunarkennsla með icrobit smátölvunni, valáfangar ýmist í tengslum við tækni, tölvur eða starfsfræðslu, sýningar á myndböndum nemahvad.is þar sem náms- og starfsráðgjafi kynnir ólíkar starfsgreinar og námsleiðir í verk-, tækni - og iðngreinum út frá myndböndunum.

Verkefnisstjóri, gert@si.is veitir allar frekari upplýsingar um verkefnið.