Málþing um náttúrufræðimenntun 2017

Málþing um náttúrufræðimenntun verður haldið 31. mars – 1. apríl 2017. Dagskráin verður með fjölbreyttu sniði, erindi, smiðjur og pallborð. Kallað verður eftir framlögum í byrjun janúar 2017.

Að þinginu standa:

Rannsóknarstofa um náttúrufræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands,
Félag leikskólakennara,
Félag raungreinakennara,
GERT, grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni,
Háskólinn á Akureyri,
Samlíf, samtök líffræðikennara.

Sjá einnig malthing.natturutorg.is

Frekari upplýsingar veitir Ester Ýr Jónsdóttir, verkefnisstjóri NaNO: esteryj@hi.is

 
Stelpur Kóða – Í boði Forritara Framtíðarinnar og Google

Forritarar framtíðarinnar bjóða stelpum á aldrinum 8-13 ára á forritunarnámskeið dagana 22. og 23. október. Námskeiðin eru haldin í samstarfi við Google og Skema.

Í tengslum við evrópsku forritunarvikuna, Europe Code Week, sem fram fer 15.–23. október næstkomandi hefur sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hlotið styrk frá Google til að kveikja áhuga á forritun hjá stelpum.

Forritarar framtíðarinnar í samstarfi við Google og Skema nota styrkinn til að bjóða stelpum á aldrinum 8 til 13 ára upp á forritunarnámskeið helgina 22. til 23. október, þeim að kostnaðarlausu. Alls eru laus sæti fyrir 224 stelpur og verða námskeiðin í tveimur aldursflokkum, 8 til 10 ára og 11 til 13 ára. Um er að ræða grunnkennslu í forritun sem gefur góða innsýn inn í skapandi heim tækninnar og tekur hvert námskeið 1 klukkustund og 15 mínútur.

#StelpurKóða #codeEU #codeIS

Uppfært: Kominn er biðlisti fyrir námskeiðin, hægt er að skrá sig hér
Ávinningur þátttökuskóla í GERT

Helsti ávinningur GERT skóla er gott aðgengi að samstarfsfyrirtækjum og öðrum tengiliðum ásamt þeirri þjónustu og aðhaldi sem verkefnisstjóri veitir skólunum.

Úr greinagerð Norðlingaskóla má sjá mikla ánægju með þátttöku í GERT: Fjölbreytileiki fyrirtækja er mikill og því var úr miklu að moða við val á heimsóknum ýmist inn í fyrirtæki eða heimsóknir fyrirtækja inn í skólann. Mikil ánægja er með þá þjónustu sem verkefnastjórinn veitir skólanum. Það er samdóma álit okkar sem að verkefninu standa innan skólans að forsendur þess að Gert–verkefnið haldi velli í skólastarfi er að halda úti verkefnastjóra sem skaffar skólunum lista yfir tengiliði fyrirtækja því það auðveldar framkvæmd og framgang verkefnisins.“

Að sama skapi má sjá mikla ánægju og ávinning Garðaskóla af þátttöku í GERT: „Þátttaka í GERT verkefninu hefur skilað skólanum góðu tengslaneti sem nýtist okkur á marga vegu. Mun auðveldara er að komast að hjá fyrirtækjum þegar við sækjum um samstarf þegar GERT verkefnið er tilgreint.  Nemendur hafa notið góðs af þeim heimsóknum sem komið hafa í skólann og er sjónum nú sérstaklega beint að 10. bekk.  Með því að svo mörg fyrirtæki geta tekið á móti 160 nemendum þá geta nemendur valið sér fyrirtækjaheimsóknir eftir áhugasviði og því má segja að heimsóknir verða markvissari og skilvirkari fyrir vikið.  Á starfsfræðsludögum bjóðum við til okkar aðilum frá GERT samstarfinu og fá nemendur aukna innsýn í nám í framhaldsskóla og nám í háskóla sem síðan tengist mismunandi störfum.  Markmiðið er að auka sýn nemenda á fjölbreyttu námi, bæði í framhaldsskóla og þegar lengra er komið og að nemendur geti tengt nám á mismunandi stigum við störf í framtíðinni. Starfamessa hefur verið haldin í skólanum sl. þrjú ár þar sem  hópur foreldra kynna störf sín fyrir alla árganga. Á Starfamessunni höfum við einnig leitað til GERT fyrirtækja til að þess að aðstoða okkur með að kynna tæknistörf.“
Fjórða starfsár GERT að hefjast

GERT verkefnið (grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni) hefur nú lokið sínu þriðja starfsári og það fjórða um það bil að hefjast. Um er að ræða samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytis um að auka áhuga grunnskólanemenda á sviði raunvísinda og tækni. Markmið verkefnisins er að bjóða upp á lausnir fyrir nemendur og kennara í grunnskólum sem geta leitt af sér aukna þekkingu og ekki síður áhuga á raunvísindum og tækni og þannig uppfyllt betur framtíðarþörf vinnumarkaðar.

Verkefnisstjóri GERT, Halla Kristín Guðfinnsdóttir, tók við í maí 2015 og mun halda áfram sem verkefnisstjóri í vetur. Undirbúningur að því að fjölga þátttökuskólum og samstarfsfyrirtækjum er hafinn og hefur þátttökuskólum fjölgað í 28 úr því að vera 12 síðasta vetur.

Starf skólanna í tengslum við GERT hefur verið mis umfangsmikið á milli skóla en allt með því sama markmiði að efla áhuga nemenda á raunvísindum, tækni, verknámi og tengdum störfum. Þar ber helst að nefna öflugt samstarf við atvinnulífið þar sem samstarfsfyrirtæki GERT hafa tekið á móti nemendum bæði stórum og smáum hópum. Í skýrslu verkefnisstjóra 2015-2016 má lesa meira um starfsemi GERT skólaárið 2015-2016.

Skýrsla verkefnisstjóra veturinn 2015-2016 má skoða hér

 
Forritarar framtíðarinnar: Opnað hefur verið fyrir umsóknir

OPNAÐ HEFUR VERIÐ FYRIR UMSÓKNIR OG RENNUR UMSÓKNARFRESTUR ÚT 20. MAÍ 2016.

ALLIR GRUNN- OG FRAMHALSSKÓLAR SEM OG SVEITARFÉLÖG ERU HVÖTT TIL AÐ SÆKJA UM.

FF_rb-9Áherslur í úthlutun fyrir árið 2016 eru:

 • Að þjálfa kennara fyrir forritunarkennslu
 • Að þjálfa kennara fyrir forritunarkennslu á spjaldtölvur
 • Tækjabúnaður í formi borðvéla

Í þessari úthlutun leggur sjóðurinn áherslu á að þjálfa kennara til þess að geta kennt forritun og úthluta borðtölvum til þess að efla tækjakost skólanna. Það sem er nýtt í þessa úthlutun er að við viljum hjálpa þeim skólum sem þegar hafa innleitt spjaldtölvur að bjóða upp á forritunarkennslu á spjaldtölvur. Þannig viljum við nýta spjaldtölvur til að kveikja áhuga á forritun og efla forritunarfærni enn frekar.

ATH: síðasta umsókn gildir ekki í þessari úthlutun þ.e. senda þarf inn nýja umsókn. Þegar sótt er um tækjabúnað er einungis hægt að sækja um borðvélar.

Smelltu hér til að sækja um styrk.
Vorfundur GERT 2016

Á vorfundi GERT – Grunnmenntun efld í raunvísinum og tækni – sem haldinn var 7. apríl s.l. var farið yfir skólaárið sem er að líða. Verkefninu hefur miðað vel og er það sérstakt fagnaðarefni að að þátttökuskólum fjölgaði úr fjórum í tólf.

Á fundinum greindu fulltrúar skólanna frá áhugaverðum verkefnum og þeirri þróun sem átt hefur sér stað í skólunum. Sem dæmi er boðið upp á GERT valfag, GERT lokaverkefni eða samþættari nálgun bæði milli faga og þvert á árganga td. með starfamessum í skólunum þar sem störf foreldra eru í brennidepli.

Mörg skemmtileg verkefni hafa verið í boði, svo sem heimsókn frá Team Spark hóp HÍ, heimsókn í Tækniskólann og Keili og í 16 flott fyrirtæki. Skólarnir lögðu ríka áherslu á jákvætt viðmót fyrirtækja og þakka það GERT stimplinum. Helstu áskoranir skólanna er kostnaður við heimsóknir og að búa til aukinn sveigjanleika í stundarskrá.

GERT (verkefni um að grunnmenntun verði efld í raunvísindum og tækni), sem er að ljúka sínu þriðja starfsári, er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga með það að markmiði að efla áhuga nemenda í grunnskóla á raunvísindum og tækni og jafnframt kynna fyrir þeim verk- og iðnmenntun ásamt störfum sem því tengjast.

Á fundinum voru veittar viðurkenningar fyrir þátttöku í verkefninu Viðurkenningar hlutu: Álftanesskóli, Garðaskóli, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Holtaskóli, Hólabrekkuskóli, Laugalækjarskóli, Norðlingaskóli og Ölduselsskóli.

En á síðastliðnu ári hlutu Garðaskóli, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Norðlingaskóli og Grunnskólinn á Ísafirði GERT viðurkenningar og voru þær þá veittar í fyrsta sinn.

Að lokum ber að nefna að tilkynnt var að verkefnisstjóri verkefnisins, Halla Kristín Guðfinnsdóttir, mun halda áfram sem verkefnisstjóri og vakti það mikla ánægju fundargesta.

vorfundur
Áhugaverðar námskeppnir 2016 – Hnakkaþon og Forritunarkeppni framhaldskólanna

Um þessar mundir var keppnin Hnakkaþon að ljúka. Hnakkaþon er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í umhverfismálum, markaðssetningu, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtækií sjávarútvegi.
Keppnin er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík. Í kjölfar tímamótasamkomulags ríkja heimsins í París á síðasta ári varðaði áskorun Hnakkaþonsins að þessu sinni loftlagsmál, eitt stærsta vandamál samtímans.
Liðið sem vann var skipað nemendum úr tæknifræði, viðskiptafræði og lögfræði og hlýtur að launum ferð til Boston á stærstu sjávarútvegssýningu heims í mars næstkomandi.

Háskólinn í Reykjavík stendur svo fyrir Forritunarkeppni framhaldskólanna sem mun fara fram 18. – 19. mars 2016.  Keppnin er ætluð nemendum í framhaldsskólum sem hafa áhuga á, eða eru að læra forritun og verður keppt í tveimur erfiðleikastigum. Þátttakendur þurfa að búa til lið, gefa því nafn og skrá það á forritun.is fyrir 10.mars. Fjölmörg verðlaun verða veitt í keppninni.
Sjá nánar hér
Viðurkenningar fyrir þátttöku í GERT skólaárið 2014-2015

GERT skólarnir skólaárið 2014-2015 hafa nú hlotið viðurkenningu fyrir þátttöku í verkefninu.
Skólarnir eru:

 • Garðaskóli
 • Grunnskóli Húnaþings vestra
 • Grunnskólinn á Ísafirði
 • Norðlingaskóli

Hefur verkefnastjórinn nú heimsótt skólana, veitt þeim verðskuldaða viðurkenningu og rætt um komandi samstarf skólaárið 2015-2016. Heimsókninni á Ísafjörð þurfti þó að fresta vegna veðurs.

Lagt var upp með að fjölga þátttökuskólum fyrir þetta skólaár og hafa nú þegar 7 skólar lýst yfir áhuga á samstarfi. Verkefnastjóri vinnur nú að því að setja upp tengiliða lista yfir þau fyrirtæki og kynningarteymi sem eru í samstarfi við GERT. Á næstu vikum mun verkefnastjórinn svo heimsækja nýju skólana og fara yfir með þeim hvað felst í verkefninu.
Annað starfsár GERT verkefnisins á enda

GERT verkefnið (grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni) hefur nú lokið öðru starfsári sínu. Um er að ræða samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka iðnaðarins og mennta- og menningarmálaráðuneytis um að auka áhuga grunnskólanemenda á sviði raunvísinda og tækni.

Verkefnisstjóri í vetur var Þorvarður Kjerúlf Sigurjónsson en Halla Kristín Guðfinnsdóttir, hefur tekið við af Þorvarði og hafið undirbúning að því að fjölga þátttökuskólum fyrir komandi vetur. Allir grunnskólar landsins hafa fengið sent bréf þess efnis.

 • Skýrsla verkefnisstjóra veturinn 2014-2015 má skoða hér
 • Bréf til grunnskólanna má skoða hérÓskað eftir áhugasömum meistaranema í starfsnám

Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið gert@si.is fyrir 7. apríl nk.

GERT(Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni) er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmið verkefnisins er að efla áhuga nemenda á raunvísindum og tækni og virkja atvinnulíf og skóla í því skyni.

Starfið felst meðal annars í því að tengja saman skóla og fyrirtæki og aðstoða við að þróa leiðir að samstarfi sem getur nýst nemendum um ókomna framtíð, setja upplýsingar og fróðleik á aðgengilegt form á vefsíðu GERT og hvetja til miðlunar upplýsinga. Þetta er tækifæri fyrir áhugasaman einstakling til að tengja saman eigið nám við fjölbreytt starf.

Starfið býður:

 • tækifæri til að byggja upp öflugt tengslanet
 • samskipti við öll skólastig frá leikskóla til háskóla
 • möguleika á að starfa með fyrirtækjum sem vilja aukin tengsl við skóla og nemendur
 • tækifæri til að starfa innan Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Á móti er þess vænst að þú:

 • stundir meistaranám á sviði sem nýst getur við áframhaldandi innleiðingu og þróun GERT verkefnisins
 • hafir áhuga á raunvísindum og tækni
 • hafir góða samskiptafærni og frumkvæði í samskiptum og getir unnið sjálfstætt
 • getir sett fram hugmyndir og haldið utan um verkefni með skipulögðum hætti
 • hafir góða þekkingu á tækni og samskiptanetum

Starfshlutfall og ráðningartími

 • starfshlutfallið nemur 40-50% starfi í 7-10 mánuði eftir samkomulagi
 • ráðningartímabil miðast við skólaárið 2015-2016